Meistari Bubbi Morthens kemur til Siglufjarðar þann 28. september n.k. og mun halda tónleika á Café Rauðku kl. 20:30. Það verður án efa uppselt og slegist um miðana. Hægt verður að nálgast miða á www.midi.is, og kostar miðinn aðeins 2500 kr.
Um Bubba: 6. júní 1956, fæddist í Reykjavík, yngstur fjögurra bræðra, Ásbjörn Kristinsson Morthens, fljótlega festist við hann nafnið Bubbi. Hann ólst upp í Vogahverfinu, móðir hans var dönsk, faðir hans hálf norskur. Í Vogunum kynntist hann strákum eins og Einari Má Guðmundssyni, Friðrik Þór Friðrikssyni og Agli Ólafssyni. Mestan hluta bernsku sinnar átti Bubbi heima hérlendis, en bjó þó um tíma í Danmörku og gekk þar í skóla. Á þeim tíma uppgötvaðist að Bubbi var haldinn skrifblindu, en hún hafði verulega hamlað skólagöngu hans heima á Íslandi. Um 1973 snýr Bubbi til Íslands á ný. Hann leggur þá frekari skólagöngu á hilluna og gerist farandverkamaður og verbúðaþræll. Allt fram til 1980.