Sunnudaginn 7. maí verður Brynhildur Þorgeirsdóttir myndhöggvari með leiðsögn um útilistaverkið Landslag, skúlptúrgarð sem staðsettur er við fiskvinnsluhús Samherja við höfnina á Dalvík. Þar fræðir listamaðurinn gesti og gangandi um hvernig manngert landslag verður til í samvinnu við manneskjur og umhverfi. Leiðsögnin hefst stundvíslega kl. 13:30 og tekur um 15 – 20 mínútur og eru allir velkomnir.
Brynhildur Þorgeirsdóttir hefur á löngum ferli sínum sem listakona skapað sitt eigið steinaríki og verk hennar eru í flestum söfnum landsins auk safna í ýmsum löndum austan og vestan hafs. Hún vinnur mikið með sandsteypt gler sem lýtur sömu lögmálum og hraunrennsli og eru verkin oftast lífrænir skúlptúrar, sem bera sterk einkenni höfundar. Brynhildur leitar gjarnan til japanskrar garðamenningar við gerð útilistaverka sinna en þar er lögð áhersla á að skapa jafnvægi og kyrrð, þar sem grunnurinn byggir á formi þríhyrnings og píramíta.
Hvalbak kemur ítrekað fyrir í listsköpun Brynhildar. Hvalbak er í jöklafræði klöpp, sem skriðjökunn hefur sorfið þannig að hún líkist helst baki á hval. Hvalbak er einmitt þungamiðjan í útilistaverkinu á Dalvík.
Verkið nær yfir þrjú beð við fiskvinnsluhúsið og inniheldur þrjú fjöll, sjö steina, klett og sex form sem þakin eru melgresi, sem óx skammt frá húsinu. Saman mynda þessi listaverk eina heild.
Texti og myndir: Aðsend tilkynning.