Fjallabyggð hefur samþykkt óverulegar breytingar á deiliskipulagi skíðasvæðisins í Skarðsdal sem Leyningsás ses. óskaði eftir. Helsta breytingin felst í uppsetningu diskalyftu fyrir ofan fyrirhugað bílastæði og aðlögun svæðisins.

Súlulyfta verður ný diskalyfta á svæðinu, um 430m að lengd og byrjar í um 300 m.y.s (metra yfir sjávarmáli) og er fallhæð hennar um 95m.

Á uppdrætti er afmarkað nýtt svæði fyrir nýja skíðalyftu, Súlulyftu auk nýs byggingarreits fyrir lyftuhús sem fær nafnið Í8.
Byggingarreitur Í6 fyrir skíðaskála er færður nær bílastæði.
Byggingarreitur Í7 á barnasvæði er færður fjær svæði nýrrar skíðalyftu og nýjum byggingarreit Í8. Afmörkun gönguskíðasvæðis breytist og verður skipt upp í tvö svæði.
Afmörkun bílastæðis breytist lítillega og fækkar bílastæðum úr 190 í um 170.

Þá hefur verið gefið samþykki fyrir framkvæmdaleyfi til að fjarlægja neðstu diskalyftu svæðisins sem er svo áætlað að staðsetja við nýtt byrjunarsvæði skíðasvæðisins.