Bókasafnsdagurinn er haldinn öðru sinni í dag þriðjudaginn 17. apríl 2012. Slagorð dagsins í ár verður “Lestur er bestur”.  Markmið dagsins er að vekja athygli á öllu því góða starfi sem unnið er á bókasöfnunum og mikilvægi bókasafna.
Á Bókasafni Fjallabyggðar á Siglufirði er “allt að gerast” þar sem endurskipulagning hefur farið fram og skráningu safnkosts útlána í Gegni, sem er rafræn samskrá bókasafna, er að ljúka.
Í tilefni Bókasafnsdagsins er könnun í gangi á því hver er uppáhaldsbók safngesta og er tekið vel á móti gestum því allir eiga að vera velkomnir á Bókasafn Fjallabyggðar og þangað á að vera gott að koma.
Nokkrir bekkir Grunnskóla Fjallabyggðar heimsækja bókasafnið í dag og í kvöld verður prjónakvöld (kl. 20-22) en slík kvöld hafa verið haldin tvisvar í mánuði í vetur og verið vel sótt og ánægjuleg. Allir eru að sjálfsögðu velkomnir á prjónakvöldin og ekki er nauðsyn að hafa prjónana meðferðis.