Blakfélag Fjallabyggðar tók þátt í Íslandsmótinu í dag og kepptu karla- og kvennalið félagsins nokkra leiki. Um er að ræða fyrstu leiki vetrarins í neðri deildum Íslandsmótsins.

Karlalið BF leikur í ár í 2. deild karla. Liðið keppti við Völsung í morgun í Íþróttahúsinu Álftanesi í Garðabæ.

Töluverðar breytingar hafa orðið á karlaliði BF í ár og hafa nokkrir reynslumeiri leikmenn horfið á braut og yngri tekið við.

Leikurinn var jafn en BF vann leikinn 0-2, og hrinurnar 21-25 og 21-25.

Kvennalið BF leikur í 2. deild og léku þær við UMF Hjalta fyrir hádegið í Laugardalshöllinni. Mikil barátta var í leiknum og endaði hann í oddahrinu, þar sem leikið er upp á tvær sigraðar hrinur í þessari deild.

BF stelpur byrjuðu leikinn vel og unnu fyrstu hrinu sannfærandi 25-21 eftir góðan endasprett. UMF Hjalti mættu mun sterkari í annari hrinu og leiddu alla hrinuna með töluverðu forskoti. Lokatölur 17-25 og staðan orðin 1-1. Oddahrinan var mjög jöfn framan af en UMF Hjalti vann 12-15, og leikinn þar með 1-2.

Karlaliðið mættu Fylki í hádegisleik.  BF strákarniur leiddu nánast alla fyrstu hrinu en Fylkismenn voru aldrei langt undan. BF kláraði þó fyrstu hrinu 25-19 eftir góðan endasprett. BF átti einnig góða seinni hrinu og voru með gott forskot nánast alla hrinuna og unnu 25-17, og leikinn 2-0.

Kvennaliðið átti leik aftur rúmlega tvö og nú við Aftureldingu X, sem er mjög sterkt lið. Afturelding hafði töluverða yfirburði og vann fyrstu hrinu 11-25. Önnur hrina var einnig mjög erfið og komst Afturelding í 2-16 og unnu hrinuna 9-25 og leikinn 0-2.

Karlaliðið lék aftur kl. 15:30 við Rima. BF strákarnir voru mun sterkari í þessum leik og komust í 7-22 í fyrstu hrinu og unnu hana 12-25. Önnur hrina var í járnum lengst af en góður endasprettur tryggði góðan sigur BF, lokatölur 19-25 og 0-2 sigur.

Kvennalið BF lék svo við Völsung C kl. 17:50. Völsungur náði fljótt góðu forskoti og allt leit út fyrir þeirra sigur, en BF stelpurnar áttu góðan endasprett og settu spennu í leikinn. Völsungur vann þó hrinuna 22-25. Seinni hrinan var jöfn framan af en Völsungur jók ók þó forskotið þegar leið á hrinuna og unnu örugglega 17-25 og leikinn 0-2.