Björgunarsveitarmenn úr Ægi á Grenivík voru við æfingar á Látrum og Keflavíkurdal á sunnudaginn sl. þegar að tilkynnt var um þrjár kindur í Þorgeirsfirði. Í framhaldinu sóttu þeir kindurnar og fluttu þær á sleðum heim í Grýtubakka en þær átti Þórarinn Ingi Pétursson bóndi og formaður Landssambands sauðfjárbænda. Kindurnar, ær, gimbur og hrútur voru vel á sig komnar og talið að ærin og gimbrin væru með lömbum. Snjólétt hefur verið út við sjó á Gjögraskaganum og þær líklega haft það nokkuð gott í vetur.

 Heimild og mynd: www.grenivik.is