Auka má öryggi ferðafólks mikið með uppsetningu og kynningu björgunarlykkju, svokölluðu Björgvinsbelti, við áfangastaði þar sem hætta getur verið á drukknun; við sjó, vötn og ár. Því hefur Slysavarnafélagið Landsbjörg, aðalstyrktaraðili þess, Sjóvá og Vegagerðin tekið höndum saman um að setja upp slíkan öryggisbúnað víða, í fyrsta áfanga á 100 stöðum í sumar.

Vinnuhópur á vegum SL, Sjóvár og Vegagerðarinnar áhættugreindi og forgangsraðaði stöðum við þjóðvegi landsins með tilliti til drukknunarhættu. Þessir 100 staðir, sem fjölsóttir eru af íbúum og erlendu sem innlendu ferðafólki, voru settir í fyrsta forgang og hafist verður handa við að setja upp björgunarlykkjur á þeim í þessum mánuði. Vegagerðin mun taka að sér uppsetninguna. Einnig er í bígerð að gefa búnað í lögreglubifreiðar og til slökkviliða.

Er það von þeirra sem að verkefninu standa að með þessum búnaði megi auka öryggi við sjó, vötn og ár.

 Helstu atriði:
  • Aukið öryggi íbúa og ferðafólks við sjó, vötn og ár
  • Samstarf Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Sjóvár og Vegagerðarinnar
  • 100 staðir í fyrsta forgangi,
  • Fyrstu björgunarlykkjurnar komnar upp við Jökulsárlón

Nánari upplýsingar veitir:

  • Jónas Guðmundsson hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg í síma 897 1757.