Framkvæmdastjóri sölusviðs Olís:

Styrkjum rekstur björgunarskipsins Sigurvins á Siglufirði með ánægju

„ Það er ekki fjarri lagi að Olís hafi greitt um fjórðung eldsneytiskostnaðar Sigurvins á undanförnum árum. Til að ná endum saman í rekstrinum þurfum við álega að leita til fjölmargra eftir stuðningi, þannig að að styrkur fyrirtækisins hefur létt okkur mjög róðurinn. Framlag Olís er gott dæmi um hvernig fyrirtæki getur stutt samfélagið með ábyrgum hætti,“ segir Ómar Geirsson skipstjóri og vélstjóri björgunarskipsins Sigurvins á Siglufirði.

Fórnfúst starf ómetanlegt

Jón Ólafur Halldórsson frakvæmdastjóri sölusviðs Olís segir að samstarf fyrirtækisins og Björgunarbátafélags Siglufjarðar hafi verið einkar ánægjulegt.

„Þorri landsmanna dáist að því fólki sem sinnir hjálparstarfi í frístundum sínum og hefur bjargað ótal mannslífum, oft við erfiðar og hættulegar aðstæður. Þetta fórnfúsa starf er ómetanlegt og við hjá Olís viljum einfaldlega rétta fram hjálparhönd. Við erum með starfsemi í Fjallabyggð og Jón Andrjés Hinriksson okkar maður á Siglufirði hefur verið óþreytandi við að benda okkur á mikilvægi björgunarskipsins.Við sýnum stuðning í verki með ánægju.“

Björgunarbátasjóður Siglufjarðar rekur Sigurvin, sem keyptur var til Siglufjarðar 2006. Ómar skipstjóri segir það ekki vera ofarlega á listanum að ganga á milli fyrirtækja og óska eftir fjárhagslegum stuðningi, slíkar ferðir séu þó nauðsynlegar.

„Okkur er yfirleitt vel tekið. Reksturinn kostar sitt, þótt allir sem koma að rekstrinum gefi eftir sína vinnu. Ég er sannfærður um að hverri krónu er vel og skynsamlega varið.“

Aukið vægi Héðinsfjarðarganga

„Nálægðin við öflugar sjúkrastofnanir getur skipt sköpum þegar um er að ræða björgun mannslífa. Ég bendi á að með tilkomu ganganna er nú innan við klukkustundar akstur frá Siglufirði til Akureyrar, þar sem fullkomið  sjúkrahús er rekið. Á Siglufirði er öflug og víðtæk þjónusta og þekking fyrir hendi á sviði björgunarmála. Mikilvægi þess að hafa staðsett björgunarskip á Siglufirði er því ótvírætt. Samstarf fyrirtækisins og Björgunarbátasjóðs Siglufjarðar hefur verið einstaklega ánægjulegt í mörg ár og ég bind vonir við að svo verði áfram,“ segir Jón Ólafur Halldórsson framkvæmdastjóri sölusviðs Olís.

Björgunarbáturinn Sigurvin á Siglufirði.

Efni aðsent.

Texti og mynd: Karl Eskil Pálsson