Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur skipað Grétu Bergrúnu Jóhannesdóttur sem formann stjórnar Matvælasjóðs. Hún er búsett á Þórshöfn á Langanesi og sinnir sínum störfum þaðan.

Gréta Bergrún er nýdoktor í félagsfræði frá Háskólanum á Akureyri og starfar sem sérfræðingur hjá Rannsóknarsetri byggða- og sveitarstjórnarmála við Háskólann á Bifröst. Þar áður starfaði hún við Háskólann á Akureyri við rannsóknir og kennslu og um árabil sem sérfræðingur á rannsóknarsviði hjá Þekkingarneti Þingeyinga.

Gréta Bergrún hefur unnið að fjölmörgum innlendum verkefnum sem snúa að atvinnu, nýsköpun og byggðaþróun og hefur því víðtæka reynslu í styrkjaumhverfi íslenskra samkeppnissjóða.

Gréta Bergrún tekur við formennsku af Margréti Hólm Valsdóttur.

Hlutverk Matvælasjóðs er að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla. Í júní 2023 úthlutaði matvælaráðherra 491 milljónum króna úr sjóðnum til 46 verkefna.

Opnað verður fyrir umsóknir fyrir næstu úthlutun úr sjóðnum á vormánuðum 2025.