Um klukkan hálf þrjú í dag var tilkynnt um bílveltu í Öxnadal við bæinn Syðri-Bægisá. Samkvæmt ummerkjum á vettvangi hafði bifreiðinni verið ekið til norðurs en síðan hafnað út af veginum og oltið nokkrar veltur. Við það kom upp eldur í bifreiðinni. Karl og kona voru í bifreiðinni og tókst manninum að komast út af sjálfsdáðum en konan vankaðist við veltuna og þurfti að hjálpa henni út. Þau voru svo bæði flutt með sjúkrabílum á Sjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar og liggja ekki fyrir frekari upplýsingar um meiðsli þeirra á þessari stundu.
Vettvangsrannsókn Lögreglu stendur yfir og má reikna með einhverjum töfum á umferð um veginn meðan á því stendur. Lögreglan stýrir umferð á vettvangi og mun þurfa að stoppa umferðina meðan ákveðnir þættir rannsóknarinnar fara fram. Á þessari stundu er því ekki hægt að segja neitt til um orsakir slyssins en rétt er að fram komi að ekki er hálka á vettvangi.
Lögreglan á Norðurlandi eystra greindi fyrst frá þessu.