Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar og Fylkir mættust í 1.deild kvenna í blaki í dag í Fylkishöllinni í Árbænum. Fylkisstelpur áttu síðast leik fyrir viku en BF átti leik í gær sem fór í fimm hrinur og var því reiknað með erfiðum leik í dag. Liðin mættust einnig fyrir tveimur vikum á Siglufirði þar sem leiknir voru tveir leikir og vann Fylkir báða þá leiki með nokkrum yfirburðum.
BF stelpurnar byrjuðu leikinn mjög vel og höfðu forystu nánast alla fyrstu hrinu og juku forskot sitt jafnt og þétt. Í stöðunni 3-5 skoraði BF sex stig í röð og komust í góða stöðu 3-11. Fylkir tók þá leikhlé en BF hélt áfram að ganga vel og komust í 4-15 og 7-18. Lítið gekk upp hjá Fylki í þessari hrinu og gengu BF stelpur á lagið og kláruðu hrinuna örugglega 13-25.
Önnur hrina var kaflaskiptari en BF byrjaði þó aftur vel og náðu öruggri forystu en Fylkir kom til baka og gerði leikinn spennandi í lok hrinunnar. BF komst í 2-8, 5-13 og 8-17 en þá kom góður kafli hjá Fylki og minnkuðu þær muninn í 15-17 eftir að hafa skoraði 7 stig í röð. BF svaraði með einu stigi en Fylkir skoraði aftur fjögur í röð og var staðan skyndilega orðin 19-18 og var nú kominn tími á leikhlé hjá BF. BF komst í 20-22 en Fylkir jafnaði 23-23. BF stelpurnar tóku þetta á seiglunni og unnu aftur 23-25 og voru komnar í 0-2.
Þriðja hrina var eign Fylkisstelpna. BF gekk ekki vel í þessari hrinu og vantaði upp á að tala saman og taka af skarið. Boltinn datt of oft í gólfið fyrir misskiling, eða ekki góðar staðsetningar leikmanna, á móti var Fylki að ganga vel. Fylkir komst í 7-3 og 13-4 og lítið gekk hjá BF. Staðan var orðin 15-6 og þá kom loksins góður kafli hjá BF sem skoraði 5 stig í röð og komust aðeins aftur inn í leikinn, staðan orðin 15-11. Fylkir hélt áfram sínum leik og komust í 21-13 og unnu að lokum 25-15 og var því staðan orðin 1-2.
Fjórða hrina var aðeins jafnari en Fylkir hafði þó yfirhöndina og gekk vel að ná í ódýr stig. Fylkir komst í 7-4 og 14-9. BF komst þá til baka og minnkuðu muninn í 14-13. Fylkir náði þá góðum kafla og komust í 21-17 og 24-18. BF skoraði þá tvo stig en Fylkir vann aftur 25-20 og var staðan orðin jöfn 2-2 og var því farið í oddahrinu.
Það var allt undir í oddahrinunni og BF stelpurnar hafa reynsluna og gáfu allt í leikinn. BF komst í 2-5 og 5-8 en Fylkir jafnaði fljótt og var staðan 8-8, 10-10 og 12-12. BF stelpurnar voru svo sterkari á endasprettinum og unnu 12-15 og leikinn 2-3. BF eru núna komnar með 11 stig eftir 9 leiki og er stutt í næstu lið.
Tveir leikmenn BF meiddust í leiknum og var smá reikistefna hjá dómara leiksins vegna inná skiptingar og fékk þjálfari BF gult spjald fyrir töf á leiknum.