Beggja vegna múlans er samsýning þeirra Hólmfríðar Vídalín Arngrímsdóttur og Sigríðar Guðmundsdóttur í Bergi menningarhúsi á Dalvík. Nafnið draga þær af því að Hólmfríður býr og starfar á Ólafsfirði en Sigríður á Dalvík og á milli þeirra er Múlinn.
Hólmfríður hefur unnið með leir í hart nær 25 ár en hóf nám við Arhus kunstakaemi í Danmörku árið 2009. Í dag vinnur hún fyrst og fremst með abstrakt skúlptúra og einnig nytjahluti sem einstök verk. Í verkunum leitar hún fyrst og fremst að fegurðinni í ljótleikanum eins og verkin í sýningunni bera með sér.
Sigríður hóf glerbræðslu í desember 2004 og hefur sótt ýmis námskeið í glerlist. Hún vinnur aðallega með nytjahluti, borðbúnað og fylgihluti. Í þessari sýningu kveður þó við annan tón en verkin á sýningunni eru veggverk.
Sýningin stendur fram til 14. október og er opin á opnunartíma Bergs.