Ökumaður fólksbifreiðar lét lífið í umferðarslysi í Öxnadal sem tilkynnt var til Lögreglu um rétt yfir klukkan 16:30 í dag. Tvær bifreiðar sem voru að koma úr gagnstæðri átt lentu saman og höfnuðu út fyrir veg í kjölfarið. Beita þurfti klippum til að ná ökumanni og farþega úr annarri bifreiðinni. Þrír voru fluttir á sjúkrahúsið á Akureyri þar sem annar ökumaðurinn var úrskurðaður látinn. Hinir eru ekki taldir mjög alvarlega slasaðir. Nánari tildrög slyssins liggja ekki fyrir en rannsókn málsins heldur áfram. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra.