Sveitarstjórn Skagafjarðar hefur ákveðið að ráða Baldur Hrafn Björnsson í starf sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs Skagafjarðar en staðan var auglýst öðru sinni í apríl sl. Alls bárust fjórar umsóknir um stöðuna, þar af drógu tveir umsækjendur umsókn sína til baka. Hinn umsækjandinn var Marta Mirjam Kristinsdóttir.

Baldur mun hefja störf sem sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs snemma sumars og tekur við af Margeiri Friðrikssyni sem gegnt hefur stöðunni undanfarin 25 ár en fer nú í starf fjármálastjóra.

Baldur Hrafn er með MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands og BSSc gráðu í samfélagsvísindum frá Fróðskaparsetri Føroya. Þá stundar hann nám í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri.