RARIK mun koma til móts við þá viðskiptavini sem urðu fyrir rafmagnsleysi í hinu fordæmalausa illviðri sem brast á 10. desember 2019. Ýmsir hafa orðið fyrir kostnaði vegna olíu- og gasnotkunar við framleiðslu á rafmagni eða við upphitun. Hægt er að sækja um endurgreiðslu á þeim kostnaði með því að fylla út eyðublað á vef Rarik.is.
RARIK bætir einnig tjón á rafbúnaði viðskiptavina sem verður vegna spennusveiflna í rafmagnstruflunum. Þeir sem hafa orðið fyrir slíku geta fyllt út kvörtunareyðublað á vef Rarik.is.
Mikið óveður gekk yfir landið 10.-11. desember síðastliðinn og voru afleiðingar þess miklar, sérstaklega á Norðurlandi. Veðrið olli umtalsverðu tjóni á línukerfum RARIK og Landsnets og hafði víðtækar rafmagnstruflanir í för með sér.
- Í Húnavatnssýslum varð mest straumleysi vegna ísingar og seltu í aðveitustöð byggðalínu í Hrútatungu, en einnig urðu bilanir í dreifikerfi RARIK. Talsvert var um staurabrot, línuslit og seltu á Hrútafjarðarlínu, Heggstaðanesi, Vatnsnesi og í Vestur-Hópi. Einnig urðu truflanir í Svartárdal, Blöndudal og í Svínadal.
- Í Skagafirði fór lína Landsnets til Sauðárkróks út og þar með varð Sauðárkrókur straumlaus. Varaaflsvélar voru keyrðar þar, en Gönguskarðsárvirkjun sem er í bænum bilaði og gat þar af leiðandi ekki komið til aðstoðar og því varð skömmtun meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Bilun í Glaumbæjarlínu olli talsverðu straumleysi og sömuleiðis fóru illa línurnar út á Skaga og á Reykjaströnd.
- Í Eyjafirði varð mjög víðtækt straumleysi þegar Dalvík, Ólafsfjörður og Siglufjörður urðu straumlaus vegna bilunar á Dalvíkurlínu Landsnets og vegna truflana í Skeiðsfossvirkjun. Þá bilaði Ólafsfjarðarlína einnig. Auk nokkurra varaaflsvéla RARIK sem fluttar voru á staðinn tókst að tengja varðskipið Þór við Dalvík, sem gerði kleyft að anna að mestu rafmagnsframleiðslu fyrir Dalvík og Svarfaðardal. Eftir að viðgerð lauk á Skeiðsfossvirkjun sá hún Siglufirði og Ólafsfirði fyrir rafmagni. Þá biluðu línur RARIK í Svarfaðardal einnig , 33 kV línan milli Dalvíkur og Árskógssands og línur í Hörgárdal, Ólafsfirði og á Svalbarðsströnd.
- Í Þingeyjasýslum olli bilun á línu Landsnets frá Laxá til Kópaskers miklu straumleysi, en varaaflsvélar voru settar upp í Lindarbrekku, á Kópaskeri, Raufarhöfn, Þórshöfn og á Bakkafirði. Þá urðu bilanir í Fnjóskadal, Bárðardal, Aðaldal og Reykjahverfi auk þess sem talsvert brotnaði af staurum á Tjörnesi, í Öxarfirði, á Melrakkasléttu og í Þistilfirði.