Orka náttúrunnar í samstarfi við Dalvíkurbyggð setti upp  tvær hleðslustöðvar við Hafnarbraut 15 nú rétt fyrir helgina. Staðsetning stöðvanna er sjávarmegin við Hafnarbraut 15 og eru þær 40 kW hvor um sig og gera vonandi sitt til að koma öllum örugglega heim eftir helgina. Stöðvarnar eru til bráðabirgða og eru annars notaðar til vara ef eitthvað kemur upp í hleðsluneti ON. Vonandi næst varanleg lausn á uppbygginu hleðsluinnviða á svæðinu fljótlega.
„Við urðum vör við umræðu um skort á hleðsluinnviðum í tengslum við þessa frábæru hátíð og vildum því svara kallinu þegar haft var samband við okkur og hjálpa rafbílaeigendum að hlaða batteríin” segir Jóhann Ingi Magnússon, sölustjóri fyrirtækja- og einstaklingsmarkaðar ON.