Bæjarstjórn Fjallabyggðar fagnar þeirri framtíðarsýn og áform sem Kleifar fiskeldis ehf. hefur kynnt varðandi laxeldi á Tröllaskaga. Verkefnið skapar tækifæri til nýrra starfa og styrkir atvinnulíf á svæðinu.

Á sama tíma leggur bæjarstjórn Fjallabyggðar áherslu á mikilvægi þess að náttúruvernd sé höfð í fyrirrúmi við alla þróun fiskeldis. Til að tryggja að firðirnir ráði við áformað fiskeldi, án þess að umhverfið verði fyrir skaða, þarf að framkvæma burðarþolsmat ásamt því að gert verði áhættumat fyrir erfðablöndun vegna sjókvíaeldisins, þar sem slíkt eldi getur haft áhrif á villta laxastofna á svæðinu.

Að lokum hvetur bæjarstjórn Fjallabyggðar, matvælaráðherra til að hraða vinnu við frumvarp um lagareldi, þar sem skýr lagalegur rammi er nauðsynlegur til að tryggja ábyrgan og sjálfbæran vöxt fiskeldisgreinarinnar til framtíðar.

Þetta kom fram á fundi bæjarstjórnar Fjallabyggðar 19. september síðastliðinn.