Ástand knattspyrnuvallarins í Ólafsfirði var tekið til umræðu hjá Bæjarráði Fjallabyggðar þann 7. júní síðastliðinn, í ljósi þess að Ólafsfjarðarvöllurinn virðist koma sérstaklega illa undan vetri.
Bæjarráð Fjallabyggðar hefur tekið undir áhyggjur forsvarsmanna Knattspyrnufélags Fjallabyggðar um ástand knattspyrnuvallarins í Ólafsfirði.
Ljóst er að fyrir liggur aðgerðaáætlun og samningur milli Fjallabyggðar og KF um umhirðu vallarins.
Bæjarráð Fjallabyggðar hefur því óskað eftir greinagerð frá umsjónarmönnum Ólafsfjarðarvallar til að taka fyrir á næsta fundi ráðsins.
Fyrsti heimaleikur liðsins var í lok maí á Ólafsfjarðarvelli, og hafði þjálfari aðkomuliðsins mikið um völlinn að segja, en liðinu gekk heldur betur illa að ná í úrslit gegn sterku liði KF þennan daginn.  KF hefur einnig þurft að leika á útivöllum fyrstu 2-3 umferðir Íslandsmótsins þar sem völlurinn er sjaldnast tilbúinn fyrir knattleik í maí mánuði.
En grasið var nánast ekki til staðar í þessum leik á vellinum og vantaði allan lit í völlinn eins og myndir sem teknar voru af Guðnýju Ágústsdóttur sýndu.
Völlurinn sjálfur er ekki í góðu ástandi, en kom sérlega illa undan vetri í ár. KF hefur kallaði eftir bættri aðstöðu í mörg ár og er þar draumur að fá gervigrasvöll svo liðið geti æft  allt árið og þurfi ekki að greiða fyrir æfingaðstöðu hjá nágranna liðum eins og Dalvík/Reyni og KA á Akureyri eða Boganum íþróttahúsi. Það myndi einnig stórbæta aðstöðu yngri flokka liðsins að hafa æfingasvæði sem nýtist allt árið, ef um upphitun væri að ræða undir nýju gervigrasi.
Dalvík/Reynir í Dalvíkurbyggð gerðu slíkan völl fyrir nokkrum árum með mikilli hjálp fyrirtækja og sjálfboðaliða auk sveitarfélagsins.