Dómsmálaráðherra, bæjarstjóri Fjallabyggðar, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, skipherra Freyju og áhöfn, aðrir góðir gestir.

Við fögnum komu nýs varðskips. Skipið lofar góðu, glæsilegt í alla staði og vel
búið til björgunar- og gæslustarfa. Samfélag okkar breytist og þróast en eitt er og
verður ætíð víst: Við búum hér á eyju úti í reginhafi, við búum í nánd við
náttúruöfl sem geta verið óvægin. Í þessu landi þurfum við að vera við öllu búin.
Já, þið þurfið að vera til taks, ágæta starfslið Landhelgisgæslunnar.

Og nú er hún komin til Íslands, fósturlandsins Freyja, fagra vanadís, svo
að vitnað sé til lína í ljóði Matthíasar Jochumssonar. Freyja var öflug gyðja í
heimi heiðni, átti meðal annars valsham sem gerði henni kleift að komast fljótt
hvert sem verða vildi. Megi Freyju okkar einnig auðnast að vera skjót á vettvang
þegar þörf krefur.

Síðar á þessum áratug verður öld liðin frá stofnun Landhelgisgæslu
Íslands. Mörgum verkum hafa liðsmenn hennar sinnt, bjargað fólki í sjávarháska
og staðið í ströngu í þorskastríðum. Freyja bætist nú í flota Gæslunnar en um
leið líður að því að Týr hverfur á braut, flaggskip okkar í síðustu átökunum við
útlendinga um fiskveiðar á Íslandsmiðum. Í minningu okkar og sögu munu lifa
vitnisburðir um dirfsku og þor þeirra sem gættu íslenskra hagsmuna þegar á
þurfti að halda.

Margt hefur breyst í tímans rás. Gæsla landhelginnar er með öðrum hætti
en áður fyrr, björgunarstörf sömuleiðis. Þegar Týr kom til landsins á sínum tíma
voru sjóslys mun tíðari en um okkar daga, fjöldi manns hlaut vota gröf hér við
land ár hvert. Nú líða þau sum án þess að nokkur mannskaði verði á sjó. Þessum
breyttu tímum megum við svo sannarlega fagna. Megi Freyja verða farsæl í
sinni þjónustu og megi gæfa og gott gengi fylgja áhöfn hennar. Megi allar góðar
vættir vaka yfir þessu tilkomumikla fleyi og megi hún lifa með okkur, sú fallega
sjóferðabæn sem sögð hefur verið við sjávarsíðuna í þessu landi öld fram af öld:

Guð faðir og hans sonur og hinn
heilagi andi,
sjái og signi lýði og lýði,
unga menn og gamla,
farm og fjalir,
stefnu og stýri,
þóftur og þiljur,
árar og austurtrog
og allan vorn reiða.

 

Texti: forseti.is.