Biskup hefur auglýst aftur eftir sóknarpresti í Ólafsfjarðarprestakall. Núverandi prestur var aðeins ráðin tímabundið en hefur gefið út að hún muni sækja aftur um stöðuna og vilji starfa sem lengst fyrir söfnuðinn.

Miðað er við að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Prestur hefur setið í Ólafsfirði síðan skömmu eftir aldamótin 1900.

Íbúar í prestakallinu voru 785 um síðustu áramót. Þar af eru 670 í þjóðkirkjunni eða 85,4 %.

Valnefnd skal ná samstöðu um einn umsækjanda en valið skal byggt á fyrirliggjandi þarfagreiningu og rökstutt á grundvelli hennar.

Í framhaldinu ræður biskup viðkomandi í starfið, að því gefnu að hann telji niðurstöður valnefndar reistar á lögmætum sjónarmiðum.