DalvíkRáðhús Dalvíkur
Ársreikningur Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2023 sýnir traustan rekstur og stöðu Dalvíkurbyggðar. Hagnaður af A hluta var 206 milljónir og af A og B hluta 260 milljónir.
Engin lán voru tekin á árinu en skuldir greiddar niður um 120 milljónir. Skuldir Dalvíkuryggðar eru langt undir skuldaviðmiði og fara úr 74% í 68%.
Handbært fé frá rekstri samstæðu A og B hluta var 602 milljónir sem gefur til kynna framkvæmda og fjárfestinga möguleika sveitarfélagsins. Handbært fé um áramót var 899 milljónir.
Dalvíkurbyggð stendur því ákaflega vel og hefur góða möguleika til að mæta fjárfestingaþörf og uppbyggingu næstu árin. Fjölmörg brýn verkefni eru í vinnslu þetta árið og næstu ár.
Góður rekstur A hluta vekur athygli og sú staðreynd að vaxtatekjur voru meiri en vaxtagjöld á síðasta ári eða um 7 milljónum. Í A og B hluta voru vaxtagjöld 36 milljónir en voru 88 milljónir árið 2022.
A-hluti merkir aðalsjóð Dalvíkurbyggðar og Eignasjóð sem sinna starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð af skatttekjum. Undir B-hluta falla stofnanir sveitarfélags, Hitaveita, Vatnsveita, Fráveita, Hafnasjóður og Félagslegar íbúðir.
Þetta kemur fram í færslu frá Sjálfstæðisfélagi Dalvíkurbyggar á samfélagsmiðlum.