Framkoma Siglfirðinga til fyrirmyndar á gamlárskvöld

Á miðnætti logaði á yfir 100 blysljósum

SIGLUFIRÐI, 2. janúar.
GAMLÁRSKVÖLD var veður hér á Siglufirði mjög gott allan daginn. Um kvöldið var heiðskírt og mjög kyrrt veður. Bærinn var allur ljósum prýddur og mjög hátíðlegt um að litast.  Sérstaklega hátíðlegan svip á bæinn setti skreyting Skíðafélags Siglufjarðar í Hvanneyrarskál fyrir ofan bæinn. Hefur Skíðafélagið undanfarín ár annast skreytingu þar. Að þessu sinni var sérstaklega vel til hennar vandað. Blysum hafði verið komið fyrir umhverfis Skálina og kl. 12 á miðnætti mynduðu blysljós í hlíðinni ártalið 1956. Mun hafa verið kveikt á yfir 100 blysljósum í hlíðinni fyrir ofan bæinn.

RÓ OG SPEKT
Tveir áramótadansleikir voru haldnir í bænum á gamlárskvöld. Voru þeir fjölmennir mjög, en til þess tekið hve vel þeir hefðu farið fram og ánægjulega. Yfirleitt var til fyrirmyndar hve áramótin gengu rólega yfir hér á Siglufirði að þessu sinni.

BRENNUR OG FLUGELDAR
Brennur voru hér og þar í bænum og sumar þeirra all stórar. Voru það mest unglingar er
fyrir þeim stóðu. Þá var flugeldum skotið af miklu kappi kl. 12 á miðnætti og mátti segja
að loftið yfir kaupstaðnum væri á tímabili eitt flugeldaregn. Engin slys eða meiðsli hlutust þó á þeim.

Götur illfærar
SIGLUFIRÐI, 2. janúar: — Veður var mjög gott yfir áramótin hér á Siglufirði, en í dag er talsverð rigning og mikil bleyta á götum. Ekki er bílfært nema um lítinn hluta miðbæjarins, þar sem götur hafa verið mokaðar.

Heimild: Morgunblaðið 3. janúar 1956.