Snemma á morgun, þriðjudaginn 10. október, verða appelsínugular veðurviðvaranir í gildi á öllu Norðurlandi.

Norðvestan og norðan 15-23 m/s og rigning eða slydda, en snjókoma á heiðum, allvíða talsverð eða mikil úrkoma. Færð versnar því ört á fjallvegum og samgöngutruflanir eru líklegar.

Lægðin sem olli rigningunni í dag þokast nú til austurs fyrir norðan land.

Í nótt og á morgun verður lægðin skammt norðaustur af landinu, og það gengur í norðvestan hvassviðri eða storm í flestum landshlutum. Á norðanverðu landinu er auk þess útlit fyrir snjókomu á fjallvegum, en rigningu eða slyddu við sjávarmál, og sums staðar má búast við talsverðri úrkomu. Það er því líklegt að færð spillist á heiðum á Norðurlandi. Annað kvöld hvessir svo enn frekar undir austanverðum Vatnajökli og á Austfjörðum.

Á miðvikudag verður veðrið gengið niður á vesturhluta landsins, en það verður áfram hvasst fyrir austan fram eftir degi.