Aðalheiður Eysteinsdóttir listamaður í Freyjulundi í Hörgarásveit er um þessar mundir að hefja endurbætur á gamla Alþýðuhúsinu við Þormóðsgötu(Allinn gamli) á Siglufirði og stefnir að því að gera húsið að vinnustofu og menningarsetri.  Húsið er 300 fermetrar að stærð og stendur í hjarta bæjarins, rétt norðan við torgið. Fjallabyggð og AFL Sparisjóður Siglufjarðar lögðu verkefninu lið. „Ég er afar þakklát þeim sem tóku vel á móti mér með þessa hugmynd,“ segir Aðalheiður.

„Framtíðarhugmyndir varðandi húsið er að lána það tímabundið lista- og fræðimönnum með því skilyrði að þeir leggji sitt af mörkum til samfélagsins. Eins er ætlunin að standa fyrir skipulögðum menningarviðburðum einu sinni í mánuði auk þess sem myndlistasýningar verða í litlu rými í miðju hússins,“ segir Aðalheiður.  Hún hyggst flytja hluta af starfsemi sinni í Alþýðuhúsið, setja upp listasmiðjur og taka þar á móti gestum  líkt og hún hefur gert í Eyjafirði undanfarin 20 ár.  Þá segir Aðalheiður að hún muni standa fyrir víðtækri menningarstarsemi í Alþýðuhúsinu með áherslu á myndlist, menningardegi barna ár hvert og fjölþjóðlegri hugmynda- og listastefnu.  „Menningarumhverfið á Siglufirði er í mikilli sókn,“ segir hún og bendir m.a. á Síldarminjasafnið, Rauðku, Þjóðlagasetrið og ýmis smærri söfn og menningarfélög.

„Þetta er í þriðja sinn sem ég legg af stað í menningaruppbyggingu af þessu tagi, fyrst með virkri uppbyggingu Listagilsins á Akureyri, þá Verksmiðjunnar á Hjalteyri og nú í Alþýðuhúsiinu á Siglufirði,“ segir Aðalheiður, en hún er fædd og uppalin þar í bær, flutti þaðan 23 ára gömul og hélt til náms.  Leiðin lá í Myndlistaskólann á Akureyri og síðar tók hún þátt í Dieter Roth akademíunni, sem er óhefðbundin akademía. Aðalheiður hefur starfað að myndlist í 18 ár og á þeim tíma lagt gjörva hönd á margt, starfrækt gallerý, staðið fyrir menningarviðburðum, sýnt verk sín í 14 löndum, kynnt myndlist á öllum skólastigum, haldið námskeið og fyrirlestra og starfað með listamönnum úr ólíkum listgreinum.

Síðastliðin ár hefur Aðalheiður búið og starfað í Freyjulundi, norðan Akureyrar, þar sem áður var félagsheimili Arnarneshrepps, en þar sameinaði hún heimili og vinnustofu í sveitasælunni. „Ég hef eingöngu unnið að myndlist undanfarin ár og m.a. hlotið starfslaun frá ríki og Akureyrarbæ, sem og menningarstyrki ýmis konar.  Nú um nokkurt skeið hef ég verið að svipast um eftir húsnæði á Siglufirði, sem hentaði fyrir vinnustofu og menningarstarfsemi og eftir að hin dásamlegu Héðinsfjarðargöng urðu að veruleika opnaðist möguleiki á að vera þar með annan fótinn og starfa bæði í Freyjulundi og Siglufirði,“ segir Aðalheiður.

Heimild og mynd: Vikudagur.is