Bráðlega verður póstur á Kópaskeri borinn út í póstbox. Kópasker er fyrsti staðurinn á Íslandi þar sem bréfapóstur er borinn út í póstbox. Um er að ræða tilraunaverkefni Íslandspósts sem verður eingöngu á Kópaskeri til að byrja með.

Dreifingin hefst í júlí og þó svo að bréfum hafi fækkað verulega, eða um 80% síðan árið 2010 þá verðum bréfum dreift tvisvar í viku líkt og annars staðar á landinu. Tekið skal fram að eingöngu er um að ræða almenn bréf en rekjanleg bréf verða eftir sem áður keyrð heim og afhent skráðum viðtakanda gegn framvísun skilríkja.

Íslandspóstur setti upp póstbox á Kópaskeri síðasta haust sem hefur afkastagetu til að afhenda bæði pakka og bréf á staðnum. Íslandspóstur telur skynsamlegra er að sameina dreifikerfi bréfa og pakka í minni þéttbýliskjörnum með því að nýta póstboxin sem alhliða dreifileið. Íslandspóstur hefur undirbúið þetta verkefni vel í samstarfi við sveitarfélagið.

Skráningarblöð fyrir íbúa

Á næstu dögum mun hvert heimili fá skráningarblað í pósti. Nöfn allra íbúa heimilisins eru skráð á blaðið og því skilað í póstkassann við Skerjakollu. Miðað er við að einn aðili á hverju heimili sé skráður sem tengiliður fyrir móttöku á almennum bréfasendingum. Þó þarf að skrá alla heimilismenn sem fá almenn bréf send þangað. Sé einhver íbúa ólögráða þarf forráðamaður að staðfesta skráninguna með sinni undirskrift.

Þegar póstur berst í hólfið 

Send eru SMS-skilaboð eða tölvupóstur þegar bréf berst í póstboxið. Viðtakandi hefur þrjá daga til að sækja póstinn en eftir það sækir Pósturinn hann og geymir á pósthúsinu á Húsavík. Þá getur viðtakandi haft samband og óskað eftir því að fá póstinn aftur í póstboxið. Ef ekki tekst að afhenda póstinn innan 60 daga verður hann endursendur til sendanda.  

Ef þetta verkefni gengur vel þá er ekki ólíklegt að þessi lausn verði innleidd víðar í smærri þéttbýliskjörnum.