Alma Dagbjört Möller tók til starfa í heilbrigðisráðuneytinu nokkrum dögum fyrir jólin sem heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur. Alma tók við embættinu af Willum Þór Þórssyni. Já, loksins Siglfirðingur aftur í ríkisstjórn.

Alma fæddist á Siglufirði árið 1961 og foreldrar hennar eru hjónin Jóhann Georg Möller (1918-1997) verkstjóri og bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins á Siglufirði og Helena Sigtryggsdóttir húsmóðir (1923-2024). Alma er yngst sex systkina og er gift Torfa Fjalari Jónassyni hjartalækni.

Alma er fyrrverandi landlæknir og var fyrst kvenna til að gegna því embætti. Hún var skipuð í embættið í apríl 2018 og gegndi því í tæp sjö ár þar til hún lét af störfum nýverið. Hún er með doktorsgráðu í svæfinga- og gjörgæslulækningum, meistarapróf í stjórnun heilbrigðisþjónustu og lýðheilsu og sérfræðiviðurkenningu í heilbrigðisstjórnun. Hún er einnig með diplóma í opinberri stjórnsýslu. Alma var framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landspítala 2014-2018 og um árabil var hún yfirlæknir á gjörgæsludeildum spítalans. Í tvö ár var hún þyrlulæknir Landhelgisgæslunnar og var jafnframt fyrsta konan til að sinna því starfi. Á árunum 1993-2002 starfaði Alma við Háskólasjúkrahúsið í Lundi í Svíþjóð og gegndi þar stjórnunarstörfum á svæfingardeildum, auk þess að starfa sem sérfræðingur á gjörgæsludeild barna við sjúkrahúsið.