Í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ á matvöru og páskaeggjum sem gerð var 25. mars var Heimkaup oftast með lægsta verðið á matvöru, í 37 tilvikum en Bónus næst oftast, í 32 tilvikum. Hagkaup var oftast með hæsta verðið, í 34 tilvikum en Iceland næst oftast, í 24 tilvikum. Mikill verðmunur var í öllum matvöruflokkum en í 37 tilvikum af 88 var yfir 40% munur á hæsta og lægsta verði á matvöru (dagvöru) í könnuninni en þar af var verðmunurinn yfir 60% í 23 tilvikum.
Bónus var oftast með lægsta verðið á páskaeggjum í könnuninni, í 17 tilvikum en Hagkaup oftast með hæsta verðið í 21 tilviki. Algengast var að munur á hæsta og lægsta verði á páskaeggjum væri 10-20%. Mestur munur á hæsta og lægsta verði var 37% munur á Góu hrauneggi nr. 4 en lægst var verðið í Bónus, 1.098 kr. en hæst í Hagkaup og Iceland, 1.499 kr.
Allt að 37% verðmunur á páskaeggjum
Bónus var oftast með lægsta verðið á páskaeggjum, í 17 tilvikum af 23 en Hagkaup oftast með það hæsta, í 21 tilviki. Krónan var í mörgum tilfellum nálægt Bónus í verði og munaði oft einungis 1 kr. á verði þó dæmi væru um meiri verðmun á páskaeggjum milli verslananna. Algengast var að munur á hæsta og lægsta verði á páskaeggjum í könnunum væri 10-20% eða í 15 tilvikum af 23. Í 5 tilvikum var innan við 10% munur á hæsta og lægsta verði, í tveimur tilvikum var 20-30% munur.
Mesti munur á hæsta og lægsta verði af páskaeggjum var á Góu Páskaeggi nr. 4, 37%. Lægst var verðið í Bónus, 1.098 kr. en hæst í Iceland og Hagkaupum, 1.499 kr. Í krónum talið var mestur munur á Nóa Siríus konfekt páskaeggi, 581 kr. en lægsta verðið var í Heimkaup, 2.907 kr. og hæsta verðið í Fjarðarkaupum, 3.488 kr.
Heimild: asi.is