KF og Kári léku í 3. deild karla í dag á Ólafsfjarðarvelli í 10 stiga hita. KF gerði tvær breytingar frá síðasta leik sem var 29. júlí og hefur liðið því ekki leikið í töluverðan tíma í þessu hléi. Hákon Leó og Magnús Aron komu inn í liðið fyrir Bozo og Friðrik Örn.

Eins og greint var hér frá þá var búist við erfiðum leik, og sú varð raunin. Gestirnir frá Akranesi voru komnir í 0-2 eftir tæpar 10 mínútur. Alexander Már fyrrum leikmaður KF skoraði í upphafi leiks en hann er jafnframt markahæsti maður Kára og var með 8 mörk í 12 leikjum fyrir þennan leik. Annar fyrrum leikmaður KF, Páll Sindri Einarsson gerði annað mark leiksins og sitt fyrsta í sumar. Staðan var 0-2 fyrir gestina í hálfleik og því á brattan að sækja fyrir KF.

Alexander Már gerði svo sitt annað mark í leiknum á 89. mínútu, en enn var tími fyrir eitt mark í viðbót því Kári fékk vítaspyrnu á 93. mínútu leiksins, og skoraði Alexander Már einnig úr því, lokatölur á Ólafsfjarðarvelli 0-4 í þessum toppbaráttuslag.

Svekkjandi úrslit fyrir KF sem eru enn í öðru sæti með jafnmörg stig og Vængir Júpíters. Næsti leikur KF er útileikur gegn Þrótti Vogum, en sá völlur er erfiður útivöllur.