Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2024 var lögð fram í bæjarstjórn þriðjudaginn 31. október síðastliðinn. Heimir Örn Árnason formaður bæjarráðs kynnti áætlunina og sagði meðal annars að sveitarfélagið stæði frammi fyrir miklum áskorunum þar sem umtalsverð óvissa ríkti í efnahagsmálum landsins og ástandið í heimsmálunum flækti einnig myndina. Megináhersla væri lögð á að standa vörð um hagsmuni barnafjölskyldna, tekjulægri hópa og eldri borgara, ásamt því að leggja áherslu á lýðheilsu bæjarbúa með bættri aðstöðu og metnaðarfullri lýðheilsustefnu.

„Við komum til móts við barnafjölskyldur með tekjutengdum leikskóla- og frístundagjöldum. Einnig bjóðum við upp á sex gjaldfrjálsar klukkustundir sem er tilraunaverkefni en lagt verður mat á kosti þess og galla a.m.k. tvisvar sinnum á árinu 2024,“ sagði Heimir Örn.

Í áætluninni er gert ráð fyrir að rekstrarafkoma A- og B-hluta samstæðunnar verði jákvæð um 530 milljónir eftir fjármagnsliði og tekjuskatt. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum en um 66% útgjalda í A-hluta eru vegna fræðslu- og uppeldismála og félagsþjónustu. Fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem eru að hálfu eða meirihluta í eigu sveitarfélagsins falla hins vegar undir B-hluta en þar er til að mynda átt við Hafnarsamlag Norðurlands, Norðurorku, bifreiðastæðasjóð, Hlíðarfjall og félagslegar íbúðir. Jákvæð niðurstaða reksturs B-hluta vegur upp á móti kostnaði við A-hlutann og því er heildarniðurstaðan jákvæð um 530 milljónir króna.

Framkvæmdir ársins 2024 eru áætlaðar alls rúmir 5,3 milljarðar króna sem skiptast nokkuð jafnt milli A- og B-hluta. Framkvæmt verður fyrir um 565 milljónir króna í skóla- og fræðslumálum og 943 milljónir í málaflokki æskulýðs- og íþróttamála. Í eignasjóði gatna er gert ráð fyrir ríflega 1,2 milljarði króna í framkvæmdir en áætluð gatnagerðargjöld ársins sem koma til lækkunar verða um 800 milljónir króna. Eins og áður eru helstu framkvæmdir B-hluta fyrirtækja hjá Norðurorku um 1,9 milljarða og hjá Hafnasamlagi Norðurlands um 429 milljónir króna.

Skatttekjur samstæðunnar eru áætlaðar 18.075 millj.kr, tekjur frá jöfnunarsjóði 5.250 millj.kr. og aðrar tekjur 10.511 millj.kr. Heildartekjur eru því áætlaðar 33.836 millj.kr.

Samkvæmt yfirliti um sjóðstreymi samstæðunnar mun veltufé frá rekstri nema 5.168 millj.kr. Fjárfestingahreyfingar nema samtals 5.265 millj.kr. Fjármögnunarhreyfingar nema samtals 799 millj.kr. Áætlað er að afborganir langtímalána nemi 1.607 millj.kr. Ný langtímalán eru áætluð 2.500 millj.kr. Handbært fé sveitarfélagsins í árslok er áætlað 3.030 millj.kr.

Heildarlaunagreiðslur ásamt launatengdum gjöldum hjá samstæðunni eru áætlaðar 18.640 millj.kr. Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins, í hlutfalli við rekstrartekjur þess, eru áætluð 55,1%. Annar rekstrarkostnaður er áætlaður 27,0% af rekstrartekjum. Skatttekjur sveitarfélagsins og tekjur frá jöfnunarsjóði eru áætlaðar 1.137 þús.kr. á hvern íbúa en tekjur samtals 1.649 þús.kr. á hvern íbúa. Árið 2023, skv. útkomuspá, eru skatttekjur ásamt jöfnunarsjóði áætlaðar 1.107 þús.kr. á hvern íbúa og heildartekjur 1.591 þús.kr.

Áætlað er að eignir sveitarfélagsins í efnahagsreikningi 31.12.2024 verði bókfærðar á 71.711 millj.kr. en þar af eru veltufjármunir 6.692 millj.kr. Skuldir sveitarfélagsins með lífeyrisskuldbindingum nema þá samkvæmt efnahagsreikningi 43.273 millj.kr. en þar af verða skammtímaskuldir 6.190 millj.kr. Áætlað er að heildareignir á hvern íbúa nemi 3.494 þús.kr. og heildarskuldir 2.109 þús.kr. Veltufjárhlutfallið er áætlað 1,08 í árslok 2024 en er áætlað 1,06 í árslok 2023. Bókfært eigið fé er áætlað að verði 28.437 millj.kr í árslok 2024. Eiginfjárhlutfall í árslok er áætlað að verði 39,7%.

„Rekstur sveitarfélagsins er viðamikill og á köflum þungur þrátt fyrir gríðarlegt aðhald á öllum sviðum. Það eru blikur eru á lofti í efnahagsmálum þjóðarinnar og töluverð óvissa um útlitið fyrir árið 2024 en við gerum það sem við getum til að verja hagsmuni barnafjölskyldna og þeirra sem minna mega sín. Rekstrarafkoma samstæðunnar er áætluð jákvæð um 530 milljónir sem hlýtur að teljast viðunandi í þessu árferði,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.

Vakin er athygli á því að þriðjudaginn 14. nóvember kl. 17.00 verður haldinn rafrænn íbúafundur á Teams þar sem sagt verður frá stærstu verkefnum komandi árs og bæjarbúum gefst kostur á að bera fram spurningar. Fundarstjóri verður Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, en Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs, kynnir og situr fyrir svörum. 

Texti: akureyri.is