Arion banki býður AFL sparisjóð og Sparisjóð Ólafsfjarðar til sölu
Stofnfjárhlutir Arion banka hf. í AFLi-sparisjóði og Sparisjóði Ólafsfjarðar eru nú til sölumeðferðar hjá Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka.

Boðin eru til sölu 94,45% stofnfjár í AFLi og 99,99% í Sparisjóði Ólafsfjarðar og er gert ráð fyrir að eignarhlutarnir verði seldir saman í einu lagi.
Söluferlið er aðeins opið hæfum fjárfestum, sbr. 9. tl. 43. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, sem geta sýnt fram á að hafa til þess bæran fjárhagslegan styrk, eða aðgang að a.m.k. 800 milljónum króna í auðseljanlegum eignum, og geta sýnt fram á að vera hæfir til að fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki.
Frestur til 10. október
Fjárfestar sem óska eftir að taka þátt í söluferlinu eru beðnir að hafa samband við Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka. Fjárfestar þurfa að leggja fram trúnaðaryfirlýsingu og upplýsingar um sig á þar til gerðu formi. Sölugögn verða afhent þátttakendum frá og með mánudeginum 26. september næstkomandi.

Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka mun taka við óskuldbindandi tilboðum til kl. 16.00 mánudaginn 10. október næstkomandi. Tilboðum skal skila á þar til gerðu formi. Í kjölfarið verða tilboðin metin og völdum fjárfestum boðin áframhaldandi þátttaka í söluferlinu. Munu þeir fjárfestar fá aðgang að frekari upplýsingum um sparisjóðina áður en óskað verður eftir bindandi tilboðum og gengið verður til endalegra samninga um kaup og sölu.

Seljandi áskilur sér rétt til að i) gera breytingar á skilmálum og/eða viðmiðum söluferlisins og/eða ii) ganga til samninga við hvaða tilboðsgjafa sem hann kýs eða hafna öllum.

Um sparisjóðina
AFL hefur verið starfræktur frá árinu 1873 og rekur útibú á Siglufirði og Sauðárkróki. Starfsmenn sparisjóðsins eru 39 talsins. Arion banki á 94,45% stofnfjár í AFLi.
Sparisjóður Ólafsfjarðar var stofnaður árið 1914 og starfar á Ólafsfirði. Starfsmenn sparisjóðsins eru 11 talsins. Arion banki á 99,99% stofnfjár í sjóðnum.

Frekari upplýsingar
Upplýsingar um söluferlið má nálgast hjá Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka í síma 444-6000 eða með því að senda tölvupóst á CF-sparisjodir@arionbanki.is.

 Texti frá Arion banka.