Fasteignafélagið Drangur hefur sótt um byggingarheimild og byggingarleyfi fyrir 10 sérstæðum gistihýsum og einu þjónustuhúsi við Skarðsveg á Siglufirði. Um 20-40 manns geta gist í þessum húsum á svæðinu hverjum sinni í heildina. Þjónustuhús verður tvískipt, með geymslu og baðaðstöðu með heitum potti og saunu annars vegar og sameiginlegri stofu og eldhúsi hins vegar. Gert er ráð fyrir að hægt sé að aka að hverju gistihýsi en að bílum sé að staðaldri lagt uppi á bílastæði við þjónustuhús. Ekki er gert ráð fyrir að starfsmenn séu á staðnum að staðaldri. Húsin koma í forsmíðuðum einingum sem settar eru saman á staðnum. Á milli húsanna verður a.m.k. 6 metra fjarlægð. Svæðið verður vaktað með öryggismyndavélum. Öryggiskerfi verður í smáhýsum sem vaktar hurðir og vatnsleka.
Gistihýsin verða 43,6 fermetrar og þjónustuhúsið verður 118 fermetrar. Byggingaráformin samrýmast gildandi skipulagsáætlunum Fjallabyggðar og hafa verið samþykkt af Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar.
Hönnunarstjóri er Hrólfur Karl Cela.
Enn eitt spennandi verkefnið að fara í gang í Fjallabyggð sem á eftir að efla ferðaþjónustuna.