Í tilefni af fimmtugasta afmælisdegi sínum mun listamaðurinn Aðalheiður S. Eysteinsdóttir standa fyrir sannkölluðum stórviðburði á Akureyri 22. júní n.k. Þennan dag  mun hún opna samtals tíu listsýningar í sjö sýningarrýmum í Listagilinu og næsta nágrenni þess þ.e. Listasafninu, Ketilhúsi, Deiglunni, Mjólkurbúðinni, Populus Tremula, sal Myndlistarfélagsins og Flóru sem staðsett er í Hafnarstræti 90. Samhliða opnun sýninganna verður boðið til mikils fagnaðar í Listagilinu þar sem vel verður veitt. Gleðin  verður við völd og listagyðjurnar heiðraðar með sjónlist, tónlist, gjörningum o.fl. Viðburður þessi verður að teljast einstakur þar sem ekki er vitað til þess að nokkru sinni áður hafi einn listamaður sýnt samtímis á jafn mörgum stöðum.

Sýningarnar, sem unnar eru með þátttöku fjölda listamanna af svæðinu, marka hápunktinn í dagskrá Sjónlistamiðstöðvarinnar á árinu 2013 og eru hluti af endapunkti verkefnisins Réttardagur 50 sýninga röð, sem staðið hefur yfir, á vegum Aðalheiðar, síðan 23. júní 2008.

Umfjöllunarefni sýninganna er íslenska sauðkindin og menning henni tengd þar sem markmiðið er að byggja brú milli listsköpunar og raunveruleikans með samstarfi við fjölda skapandi fólks. Að mati Aðalheiðar eru listir sá samfélagsspegill sem nauðsynlegur er til eflingar og afreka, ekki síður en nýsköpun og uppfinningar. Með því að túlka bændasamfélagið og þann óendanlega mannauð sem við höfum yfir að ráða vonast hún til að opna fyrir flóðgáttir hugmynda og færa áhorfandann nær hamingjunni.

Allaweb

Heimild: Listasafn Akureyrar.