Í kvöld 22. júní opnar stærsta sýning allra tíma í Listagilinu á Akureyri þegar Aðalheiður S. Eysteinsdóttir opnar samtals 10 sýningar á 7 stöðum. Herlegheitin byrja kl. 22:00 en þá ætlar Aðalheiður að safna sem flestum neðst í Gilið og ávarpa mannfjöldan.

Um er að ræða lokin á verkefninu Réttardagur–50 sýninga röð sem staðið hefur yfir síðan júní 2008. Sýnd verða nokkur hundruð verk eftir Aðalheiði unnin á síðustu 5 árum auk verka 15 annarra listamanna sem eru gestalistamenn á sýningunum. Á opnunarkvöldinu verða lesin upp ljóð, sungið, fluttir gjörningar og tónlist.

Aðalheiður hefur nú þegar sett upp 40 sýningar í verkefninu sem allar fjalla á einn eða annan hátt um íslensku sauðkindina og þá menningu sem henni tengist.  Sýningarnar hafa ratað í flesta landshluta og til Danmerkur, Þýskalands, Bretlands og Hollands.  Á hverjum stað fyrir sig hefur Aðalheiður kallað til skapandi fólk og aðra listamenn til þátttöku í sýningunum og tengt sýningarnar dagatali sauðkindarinnar svo sem sauðburði á vorin og slátrun á haustin.

 

Viðburðir á opnun:

  • Kl. 22.00 Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, uppákoma neðst í Listagilinu.
  • Kl. 22.30 Norðanpiltar, tónlist í Populus Tremula.
  • Kl. 22.30 Guðmundur Oddur Magnússon, gjörningur á meðan gengið er í gegnum sýningarnar.
  • Kl. 22.45 Þórarinn Hjartarson og fl. réttarsöngur  í Listasafninu.
  • Kl. 22.00 Nemendur Myndlistaskólans á Akureyri, gjörningur í Listasafninu.
  • Kl. 22.05. Kristín Sigtryggsdóttir kveður í Deiglunni.
  • Kl. 22.15 Guðbrandur Siglaugsson, upplestur í Ketilhúsinu.
  • Kl. 22.30 Jón Laxdal Halldórsson, upplestur í sal Myndlistafélagsins.
  • Kl. 22.45 Sá á fund sem finnur, gefins verk eftir Aðalheiði í Flóru.
  • Kl. 22.45 Aðalsteinn Þórsson, gjörningur í Listasafninu.
  • Kl. 24.00 Þórey Ómarsdóttir , söngur og upplestur í Ketilhúsinu.
  • Kl. 00.15 Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, gjörningur í Ketilhúsinu.

Aðalheiður hvetur sýningargesti til að mæta í þjóðbúningum og lopapeysum.

vefrettir
Heimild:Listasafn.akureyri.is