Mynd: Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.

Arnfinna Björnsdóttir opnar sýningu með nýjum verkum í Ráðhússalnum á Siglufirði þann 18. maí næstkomandi. Sýningin er opin daglega frá kl. 15.00 – 17.00 til og með 20. maí.

Abbý eins og hún er kölluð er fædd á Siglufirði og býr þar enn. Hún hóf ung að teikna og þótti drátthög, en hóf myndlistanám á árunum 1992 – 1994 í kvöldskóla hjá listamanninum Örlygi
Kristfinnssyni. Örlygur hvatti hana til ferkari myndagerða. Síðar tók Abbý námskeið sem buðust hjá dóttur sinni Aðalheiði S. Eysteinsdóttur.
Undanfarin 20 ár hefur hún unnið að list sinni og handverki á vinnustofunni að Aðalgötu 13 á Siglufirði og árlega opnað sýningu þar á afmælisdegi Siglufjarðarkaupstaðar þann 20. maí. En þess má geta að Abbý vann á bæjarskrifstofu Siglufjarðar í 37. ár.

Arnfinna Björnsdóttir var kjörin bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2017.

Sýningin sem nú er sett upp samanstendur af þremur myndröðum. Klippimyndir sem unnar eru útfrá minningum Abbýar frá síldarárunum á Siglufirði, tússteikningar sem eru klettamyndanir í fjöllum fjarðarins og nefnast Tröllin í fjöllunum , og akrilmyndir sem bera yfirskriftina vetur, sumar, vor og haust og hafa Hólshyrnuna í bakgrunni og fugla í forgrunni.

Abbý hefur haldið fjölda sýninga á Norðurlandi og má þar nefna sýningarstaði eins og Verksmiðjuna á Hjalteyri, Kompuna, Ráðhússal Siglufjarðar, Hannes Boy, Kaffi Klara, Tjarnarborg
og vinnustofa Abbýar.