Menntaskólinn á Tröllaskaga útskrifaði 52 nemendur nú á vorönn og hefur útskriftarhópurinn aldrei verið stærri í þessum frábæra skóla í Fjallabyggð.

Alls hafa nú 602 nemandur brautskráðst frá MTR á þeim fjórtán árum sem hann hefur starfað. Fimm staðnemar voru í útskriftarhópnum en stærstur hluti nemenda skólans eru fjarnemar og voru 47 þeirra að útskrifast núna. Þeir koma frá fjórtán stöðum af landinu. 21 útskriftarnemi sá sér fært að mæta í athöfnina en aðrir fylgdust með í streymi

Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir aðstoðarskólameistari stýrði athöfninni og flutti ávarp þar sem hún sagði frá starfi skólans. Í máli hennar kom m.a. fram að á þessari önn voru um 540 nemendur skráðir í nám. Um 90% þeirra fjarnemar og stór hluti af höfuðborgarsvæðinu. Kjörnámsbraut var fjölmennasta brautin og þar á eftir félags- og hugvísindabraut.

Skólameistarinn Lára Stefánsdóttir flutti einnig ávarp þar sem hún óskaði útskriftarnemum allra heilla og sagði að stúdentspróf í dag væri frekar varða á veginum heldur en tímamót. Einnig ræddi hún um mikilvægi þess að mæta hverjum degi með jákvæðni og sjá bjartari hliðar á lífinu. Nefndi hún sem dæmi er hún, borgarbarnið, flutti til Ólafsfjarðar til að gerast skólameistari við MTR, þá voru það mikil viðbrigði og hún kveið því að dvelja þar í fámenninu. En smátt og smátt fór hún að sjá fegurðina í því að búa þar, náttúrufegurðin, fjöllin, samheldnin, kynnin við íbúana og allt þetta smáa sem gefur lífinu gildi og hægt er að gleðjast yfir.

Ávarp nýstúdents flutti Sigurbjörg Brynja Ingvarsdóttir. Hún lagði mikla áherslu á hversu valdeflandi námið við MTR hefði verið og hversu stuðningur kennara hefði skipt miklu máli. Hún hefði byrjað þar 15 ára óöruggur unglingur en útskrifaðist nú sjálfsörugg og tilbúin að takast á við næstu skref. Skólinn byði upp á öruggt umhverfi þar sem allir nemendur gætu verið þeir sjálfir og hefðu tækifæri til að blómstra. Fyrir hönd útskriftarnema þakkaði hún samstarfið við starfsfólkið sem hún sagði vera jákvætt, hvetjandi og skilningsríkt og námið væri sérlega vel skipulagt.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef MTR.is