Vinnuskóli Fjallabyggðar hófst 10. júní og í ár eru um 40 ungmenni á aldrinum 14. – 16 ára skráðir til vinnu.
Helstu verkefni Vinnuskólans eru eins og áður að halda Fjallabyggð og opnum svæðum hreinum, gróðursetja blóm, sjá um slátt og fleira.   Unglingarnir fá vinnu út júlí mánuð, en þeir sem gátu sótt um starf þurftu að hafa lögheimili í Fjallabyggð og vera í 8.-10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar. Eldri unglingarnir vinna 7 tíma vinnudag. Unglingarnir á landsbyggðinni eiga möguleika á mun meiri vinnu yfir sumarið en á höfuðborgarsvæðinu, er þar eru aðeins 3 vikur í boði fyrir hvert barn. Ungmennin í Fjallabyggð eru því heppin að fá svona langan tíma til að afla sér tekna yfir sumarið.

Ungmenni sem nýlokið hafa 8. bekk: Mætt er fyrir hádegi fimm daga í viku, frá kl.8:30 til kl.12. Einnig er hægt að haga vinnu þannig til ef einstaklingur vill frekar vinna frá 13:00 – 16:30 þá er það í boði líka. Daglegur vinnutími reiknast 3,5 klst. eða 17,5 tímar á viku.
Ungmenni sem nýlokið hafa 9. bekk: Unnið frá kl.8:30 til 12 og frá kl. 13:00 til 16:30. Daglegur vinnutími reiknast 7 klst. Unnið er 3,5 klst. fyrir hádegi á föstudögum. Samtals möguleiki á 31,5 klst. vinnu á viku.
Ungmenni sem nýlokið hafa 10. bekk: Unnið frá kl.8:30 til 12 og frá kl. 13:00 til 16:30. Daglegur vinnutími reiknast 7 klst. Samtals möguleiki á 35 klst. vinnu á viku.