Í gær var brautskráningarathöfn Háskólans á Hólum haldin í Menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð og var þetta fyrsta brautskráningathöfn nýs rektors, Hólmfríðar Sveinsdóttur.
Frá skólanum brautskráðust einstaklingar frá fimm þjóðlöndum. Auk Íslands voru nemendur frá Finnlandi, Kosovo, Rúmeníu og Þýskalandi,
Alls brautskráðust 40 nemendur. Frá Ferðamáladeild brautskráðust 17 einstaklingar, sjö með diplómu í viðburðastjórnun, þrír með BA gráðu í stjórnun ferðaþjónustu og móttöku gesta og sjö með BA gráðu í ferðamálafræði.
Frá Fiskeldis- og fiskalíffræðideild brautskráðust átta einstaklingar, sjö með diplómu í fiskeldsfræðum og einn með MS gráðu í sjávar- og vatnalíffræði.
Frá Hestafræðideild brautskráðist 15 einstaklingar, allt konur, með BA í reiðmennsku og reiðkennslu. Athöfnin var gleðistund enda höfðu flestir nemendurnir lagt stund á nám við mjög krefjandi aðstæður þegar samkomutakmarkanir og samkomubönn voru tíð á þessu tímabili og komu oft í veg fyrir hefðbundið skólastarf.
Um tónlistarflutning við athöfnina sáu Sigurlaug V. Eysteinsdóttir og Sigfús Benediktsson.
Að athöfn lokinni bauð háskólinn nýbrautskráðum Hólamönnum, aðstandendum og starfsfólki til veglegrar veislu sem Kaffi Hólar sáu um.