Undirbúningur fyrir Síldarævintýrið á Siglufirði 2024 er nú kominn í fullan gang hjá stýrihópi. Núna er lagt upp með fjögurra daga fjölskylduhátíð um verslunarmannahelgina, 1.-4. ágúst, mánudagurinn 5. ágúst er svo frídagur Verslunarmanna. Gert er ráð fyrir fjölmörgum stórum viðburðum til að fagna þessum tímamótum þegar hátíðin verður haldin í 30. skiptið á Siglufirði.
Öll barnadagskrá verður ókeypis, heimafólk í aðalhlutverki í tónlistarflutningi og annarri skemmtun, söfn og setur bjóða upp á fjölbreytta dagskrá að auki. Einnig verður sameiginleg grillveisla bæjarbúa, hverfaskreytingar, bjórleikar, síldarball, froðufjör, hoppukastalar, varðeldur, fjöldasöngur og margt fleira.
Markmið hátíðarinnar að kynna það sem Siglufjörður hefur upp á að bjóða í menningu, mat og drykk að ógleymdu stórfenglegu umhverfi og sögunni sem er við hvert fótmál.
Nú er verið að fullmóta dagskrána og eru þeir rekstraraðilar og menningarstofnanir á Siglufirði sem hafa hugsað sér að vera með viðburð á Síldarævintýrinu beðnir að láta stýrihóp Síldarævintýrsins vita með skilaboðum á síðu Síldarævintýrisins.