Sameiginlegt KF/Dalvík í 3. flokki fóru með 27 iðkendur, 26 stráka og eina stelpu á Gothia Cup í Svíþjóð, en það er stórt knattspyrnumót sem haldið er ár hvert í Gautaborg og fara fjölmörg íslensk lið á mótið.
Hópurinn ásamt forráðamönnum auk tveggja þjálfara og fjögurra liðstjóra dvöldu í viku tíma í Gautaborg. Hópurinn fékk nýjar keppnistreyjur fyrir mótið en ákveðið var að þær yrðu bleikar að lit.
1878 lið voru á mótinu frá 69 löndum og voru spilaðir 4771 leikir. Frá Íslandi komu 43 lið í u13-16 ára karla og kvennalið.
KF/Dalvík var með u15 og u16 ára lið á mótinu.
U15 umfjöllun:
U15 liðið lék fyrst við ítalska liðið Cagliari og tapaðist leikurinn 2-1. Ítalarnir skoruðu tvö mörk snemma í fyrri hálfleik með stuttu millibili og KF/Dalvík svaraði með einu marki í síðari hálfleik. Markið gerði Baldvin Ari Ögmundsson.
Næsti leikur var gegn Sundsvall frá Svíþjóð. Sá leikur var töluvert erfiðari og tapaðist 0-5.
Sænska liðið Mjallby voru næstir til að mæta KF/Dalvík en endaði leikurinn 3-2 fyrir Svíana eftir hörku leik. Svíarnir komust í 2-0 í fyrri hálfleik en Agnar Óli Grétarsson gerði tvö mörk í síðari hálfleik og kom KF/Dalvík aftur inn í leikinn í stöðunni 2-2. Mjallby átti svo lokamarkið og unnu leikinn 3-2.
Lokaleikur liðsins var gegn Landvetter frá Svíþjóð og var það 64 liða útsláttur. Svíarnir komust í 4-0 en KF/Dalvík kom til baka  þegar Ísar Hjalti Hafþórsson skoraði þrennu á örfáum mínútum í síðari hálfleik og var staðan skyndilega orðin 4-3 þegar skammt var eftir. KF/Dalvík náði ekki að jafna og tapaðist leikurinn 4-3.
U16 umfjöllun:
U16 liðið lék fyrst gegn Skvöde AIK frá Svíþjóð í fyrsta leik  og unnu Svíarnir nokkuð örugglega 4-0.
Næsti leikur var gegn Vallens IK, einnig frá Svíþjóð og fór leikur 1-1. Vallens komst yfir á 12. mínútu en KF/Dalvík jafnaði nokkrum mínútum síðar með marki frá Ísari Hjalta Hafþórssyni. Fleiri mörk voru ekki skoruð.
Þriðji leikurinn hjá u16 liðinu var gegn California Magic frá Bandaríkjunum. Magic liðið komst yfir í fyrri hálfleik með marki á 22. mínútu. Ísar Hjalti Hafþórsson jafnaði leikinn tíu mínútum síðar.Kristján Sölvi Sigurðsson fékk tvö gul spjöld í síðari hálfleik og voru KF/Dalvík því manni færri til leiksloka. Ísar Hjalti var ekki hættir og skoraði annað mark skömmu fyrir leikslok og kom KF/Dalvík í forystu 2-1, sem urðu lokatölur leiksins.
Í 64 liða úrslitum ætti KF/Dalvík Elslövs BK frá Svíþjóð. KF/Dalvík skoraði mark strax á 2. mínútu leiksins þegar Andri Mar Hilmarsson skoraði. Svíarnir svöruðu til baka með 6 mörkum og unnu leikinn með nokkrum yfirburðum. Lokatölur 6-1.
Frábær reynsla fyrir hópinn að taka þátt í svona stóru móti.