Alls nemur fjölgunin 17,9% frá síðasta ári og er stöðug fjölgun farþega undanfarin tvö ár talin vísbending um að nýtt vaxtarskeið sé hafið í farþegaflugi eftir samdrátt í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Forráðamenn í flugi og ferðaþjónustu telja að þennan vöxt megi m.a. þakka athygli sem Ísland fékk í kjölfar eldgosanna á síðustu tveimur árum, góðum árangri markaðsátaksins Inspired by Iceland, auknu sætaframboði flugfélaganna sem og nýrra tækifæra sem opnast hafa með tilkomu Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúss.
Í frétt frá ISAVIA segir að flugfarþegum á Keflavíkurflugvelli hafi fjölgaði um 17,9% á árinu 2011 miðað við árið 2010. Alls lögðu 2.112.017 farþegar leið sína um flugvöllinn á árinu, þar af tæplega 1,7 milljón á leið til og frá landinu sem er um 16,3% aukning. Á sama tíma
fjölgaði skiptifarþegum, það er þeim farþegum sem millilenda á Keflavíkurflugvelli til að halda áfram för, um 25%, eða úr 330 þúsund í 412 þúsund farþega. Þetta er næstmesti farþegafjöldi sem farið hefur um flugvöllinn á einu ári og nálgast metárið 2007 með 2.182.232 farþega, og álíka hlutfallsleg aukning og varð árið 2004 eftir mikinn samdrátt í farþegaflugi í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar í New York.
Spáð er frekari farþegaaukningu á næstu árum og áætlar Isavia að farþegum á Keflavíkurflugvelli fjölgi um 7,5% á þessu ári. Icelandair hefur boðað að flugáætlun ársins 2012 verði sú umfangsmesta í sögu félagsins og ný flugfélög hafa boðað komu sína inn á markaðinn og önnur aukið sætaframboð sitt.
Heimild: Iðnaðarráðuneyti