Rúmlega 200 manns tóku þátt´i Fjarðargöngunni í Ólafsfirði um helgina, en keppt var í næturgöngu á föstudag og aðalkeppnin var á laugardag. Þar tóku 62 þátt í 30 km göngu um miðbæ Ólafsfjarðar. Þetta mót er það stærsta hér á landi sem haldið er í byggð. Fjölmargir sækja þetta mót utan heimamanna og myndast því mikil stemning í bænum þessa helgi.

í 30 km göngunni þá kom fyrstur í mark Einar Árni Gíslason frá SKA á tímanum 01:33:35, og vann hann með nokkrum yfirburðum þessa vegalengd. Heimamaðurinn Helgi Reynir Árnason frá SÓ kom 2. í mark rúmum 7 mínútum á eftir fyrsta manni. Ólafur Pétur Eyþórsson var sá þriðji og keppti fyrir SKA.

Fyrst kvenna í mark í 30 km var Árný Helga Birkisdóttir en hún keppti fyrir SKA og kom á tímanum 02:08:25. Önnur var Magnea Guðbjörnsdóttir fyrir SÓ og þriðja var Edda Vésteinsdóttir.

í 15 km næturgöngu kom Þorvaldur Sveinn Guðbjörnsson frá SÓ fyrstur í mark og 2. var Arnar Ólafsson, aðeins fjórum sekondum á eftir. Kristján Hauksson frá SÓ var þriðji í mark.

Fyrst kvenna í 15 km næturgöngu var Diljá Helgadóttir fyrir SÓ-Elítan á tímanum 01:08:44. Önnur kvenna var Sólveig Anna Brynjudóttir frá Hlíð Heilsurækt á tímanum 01:19:47.

Í 7,5 km næturgöngu var Friðrik Ásgeirsson frá SÓ fyrstur.

Fyrst kvenna í 7,5 km næturgöngunni var Theodóra Björk Heimisdóttir frá Ullur á tímanum 00:40:48.

Brautin liggur frá nágrenni Íþróttamiðstöðvarinnar og samsíða tjörninni, meðfram gamla Sparisjóðshúsinu og Ólafsfjarðarkirkjunni og víðar um miðbæinn í Ólafsfirði.
Við Þverbrekku snýr hún aftur inn að byggðinni og er gengið á Brekkugötunni og meðfram brekkunni og fram með vatni og svo til baka að marksvæðinu yfir og undir brú hvers uppistöður eru reistar úr snjó.
Ljósmyndir: Rótarýfélag Ólafsfjarðar
Ljósmyndir: Rótarýfélag Ólafsfjarðar