Í gær, þann 29. júní voru liðin 20 ár frá vígslu Bátahúsi Síldarminjasafnsins á Siglufirði. Þann dag voru mikil hátíðarhöld á Siglufirði þegar norski krónprinsinn Hákon Magnús vígði hið nýja safnhús Síldarminjasafnsins.
Fyrstu drög að Bátahúsinu voru lögð fram árið 2000 og ári síðar var farið að vinna að skipulagi uppbyggingarinnar.
Árið 2002 var skipið Týr SK flutt sjóleiðis frá Sauðárkróki til Siglufjarðar en síðasta spölinn keyrði Týr um þröngar götur bæjarins og inn í grunn væntanlegs húss. Við hlið Týs var komið fyrir Draupni EA 70. Húsgrunnurinn var enn ósteyptur en sýningin hafði verið hönnuð og safngripunum komið fyrir á réttum stað.
Sumarið 2003 voru undirstöður hússins steyptar og það gert fokhelt fyrir árslok. Húsið var byggt utan um bátana. Bryggjur voru smíðaðar í kringum síldveiðiskipin og nótabátana.
Í Bátahúsinu eru bátarnir bundnir við bryggjur, búnir viðeigandi veiðarfærum. Neta- og beitningaskúrar standa til hliðar sem minnisvarðar um þá fjölbreyttu iðju sem fram fór á höfninni á árum áður. Í anddyri hússins er uppsett gömul veiðarfæraverslun með innréttingum og varningi úr Veiðarfæraverslun Sigurðar Fanndal sem rekin var á Siglufirði um áratugaskeið.
Sama ár og vígsla Bátahússins fór fram hlaut Síldarminjasafnið Evrópuverðlaun safna sem besta nýja iðnaðarsafn Evrópu.
Síldarminjasafnið er stærsta og mest sótta safnið í Fjallabyggð og hefur gríðarlegt aðdráttarafl erlendra og innlendra gesta.
Þetta kemur fram í grein sem Síldarminjasafnið birti í gær.