Veðurspáin er heldur vætusöm á Norðurlandi og hefur því Skagafjörður ákveðið að hátíðardagskráin fari fram í íþróttahúsinu á Sauðárkróki í stað íþróttavallarins.
Dagskráin á Sauðárkróki hefst kl 12:30 þegar teymt verður undir börnum á hestbaki á lóðinni við Kaupfélag Skagfirðinga. Skátarnir verða með blöðrusölu í anddyri Skagfirðingabúðar frá kl. 12:30-13:30 og skrúðganga fer af stað frá Skagfirðingabúð í íþróttahúsið kl. 13:40, ef veður leyfir.
Hefðbundin hátíðardagskrá verður í íþróttahúsinu kl. 14 þar sem Kvennakórinn Sóldís mun syngja, Leikfélag Sauðárkróks skemmtir gestum og töframaður sýnir töfrabrögð. Fjallkonan flytur ljóð og Ásta Ólöf Jónsdóttir, formaður Pilsaþyts fer með hátíðarræðu. Fjallkonan mun skarta nýjum, glæsilegum búningi sem meðlimir Pilsaþyts hönnuðu og saumuðu með miklum glæsibrag.
Guðsþjónustur í tilefni dagsins eru í Sauðárkrókskirkju og Miklabæjarkirkju og hefjast þær kl. 11:00.
Eins og hefð er orðin fyrir standa Agnar á Miklabæ og Jón í Miðhúsum, áhugamenn um gamla bíla, að hópakstri fornbíla á þjóðhátíðardaginn. Ferðin hefst við Varmahlíðarskóla kl. 10 og eru allir sem eiga fornbíla (25 ára og eldri) velkomnir með í för. Ekið verður frá Varmahlíð að Miklabæ, þar verður hlýtt á messu kl. 11 og þaðan farið í Héðinsminni og fengið sér hressingu, en kvenfélag Akrahrepps mun standa fyrir veitingum í Héðinsminni að messu lokinni. Síðan mun leiðin liggja á Sauðárkrók og lýkur ferðinni á planinu við Kaupfélag Skagfirðinga.
Á þjóðhátíðardaginn verða sundlaugarnar á Hofsósi og í Varmahlíð opnar en Sundlaug Sauðárkróks lokuð vegna viðhaldsvinnu. Opnunartíminn á Hofsósi verður frá kl. 9-21 en í Varmahlíð verður opið frá kl.10-17.