Brautskráðir voru 140 nemendur úr VMA á vorönn af ólíkum námsbrautum og voru brautskráningarskírteinin samtals 162 því 22 nemendur brautskráðust með tvö skírteini. Á þessu skólaári hafa því samtals útskrifast 228 nemendur því 88 nemendur voru útskrifaðir í desember síðastliðinn.

Skólameistari sagði að á undanförnum árum hafi framhaldsskólar breyst mikið, námsframboð væri fjölbreyttara og fleiri skólar byðu upp á námstækifæri fyrir ólíka nemendahópa út frá getu og hæfni þeirra. Kennsluaðferðir hafi breyst og kennaranámið sömuleiðis, sjálfstæði nemenda væri meira í náminu og því einfaldara að finna þann farveg í námi sem henti nemendum á hverjum tíma. Með innleiðingu laga um farsæld barna sagði skólameistari að aukin áhersla væri lögð á stoðþjónustu, t.d. hvað varði náms- og starfsráðgjöf og velferð nemenda.

Þó svo að bróðurpartur nemenda VMA komi sem fyrr frá Akureyri og úr nágrannabyggðarlögum er það svo að skólinn brautskráir á ári hverju nemendur alls staðar af landinu.

Skipting brautskráningarnema á námsbrautir er sem hér segir:

Félags- og hugvísindabraut 11
Fjölgreinabraut 15
Íþrótta- og lýðheilsubraut 2
Listnáms- og hönnunarbraut / fata- og textíllína 1
Listnáms- og hönnunarbraut /myndlistarlína 6
Náttúruvísindabraut 4
Viðskipta- og hagfræðibraut 5
Sjúkraliðabraut 4
Iðnmeistarar 17
Blikksmíði 1
Húsasmíði 14
Rafvirkjun 18
Vélstjórn 16
Vélvirkjun 2
Viðbótarnám til stúdentsprófs að loknu starfsnámi 10
Sérnámsbraut 8
Starfsbraut 6

 

Harpa Jörundardóttir, sviðsstjóri brautabrúar og starfsbrautar, brautskráði 14 nemendur, þar af 8 á sérnámsbraut og 6 á starfsbraut. Nemendur á starfs- og sérnámsbraut eru í einstaklingsmiðuðu námi og fá fjölbreytt tækifæri í námi sínu við skólann.

Ómar Kristinsson, sviðsstjóri stúdentsprófsbrauta, sjúkraliða og fjarnáms brautskráði 65 nemendur, þar af 44 nemendur af stúdentsprófsbrautum skólans, 4 sjúkraliða (þar af 1 með stúdentspróf) og 17 iðnmeistara í ýmsum fögum, en þeir hafa allir stundað nám sitt í fjarnámi.

Unnur Ása Atladóttir, sviðsstjóra starfsnáms, brautskráði 51 nemanda úr iðn- og starfsnámi með 71 skírteini því 20 nemendur útskrifuðust með tvö skírteini. Þá útskrifuðust 10 með stúdentspróf að loknu starfsnámi.

Myndir: VMA / Hilmar Friðjónsson