Sveitarfélagið Skagafjörður hefur samið við Steypustöð Skagafjarðar að undangengnu útboði um framkvæmdir við nýja götu á Sauðárkróki sem mun bera nafnið Nestún. Framkvæmdirnar snúa að gatnagerð og fráveitu við Nestún og munu framkvæmdir hefjast á næstu dögum. Verklok eru í byrjun október 2021 og er áætlað að lóðir við Nestún verði auglýstar með haustinu.
Í Nestúni er gert ráð fyrir alls 14 nýjum byggingalóðum fyrir einbýlishús. Staðsetning götunnar er ofan við Laugatún og liggur samsíða henni, með aðkomu af Túngötu. Gert er ráð fyrir 7 lóðum sitthvoru megin götu. Austan götu er gert ráð fyrir tveggja hæða húsum, en einnar hæðar húsum vestan götu.