100 Færeyingar komu í gær til Akureyrar með beinu leiguflugi gagngert til þess að renna sér á skíðum í Hlíðarfjalli. Blautur snjór og 10 stiga hiti beið skíðafólksins sem er á öllum aldri.

Þetta er í þriðja sinn sem flogið er beint frá Færeyjum til Akureyrar með skíðafólk en fyrsta ferðin var farin árið 2010.

Að sögn Guðmundar Karls Jónssonar, forstöðumanns í Hlíðarfjalli, hefur það færst í aukana að erlendir ferðamenn bregði sér á skíði í fjallinu. Þannig renndi til að mynda 60 manna hópur frá Danmörku sér á skíðasvæðinu í janúar en ekki er vitað til þess að aðrir en Færeyingarnir hafi komið til landsins í leiguflugi gagngert til þess að renna sér á skíðum.

Heimild: Rúv.is