Sameiginlegt lið Knattspyrnufélags Fjallabyggðar og Dalvíkur hafa verið í góðu samstarfi undanfarin ár og sendu liðin nú um 70 börn og unglinga til að taka þátt í alþjóðlega knattspyrnumótinu ReyCup sem Þróttur í Reykjavík hefur haldið undanfarin 20 ár í Laugardalnum í Reykjavík. Vegna framkvæmda í Laugardalnum fækkaði um einn knattspyrnuvöll, þar sem Valbjarnarvöllurinn er ekki nothæfur í sumar þar sem verið er að undirbúa gervigras. Völlur Leiknis í Breiðholti bættist því við í ár og einnig Framvöllurinn í Safamýri, en þessir tveir vellir eru utan keppnissvæðis og því smá umstang fyrir liðin að fara þangað. KF/Dalvík lék í dag á þessum völlum og í Laugardalnum. Ágætis veður var frameftir degi, en síðdegisskúrir komu í síðustu leikjum dagsins.

3. flokkur karla lék við KFR í morgun og tapaðist leikurinn 0-4. Önnur lið í þessum riðli eru ÍA-2 og Þróttur-2.

4. flokkur karla(styrkleikaflokkur 1) lék við Fjölni í morgun og tapaðist leikurinn 4-1. Önnur lið í riðlinum eru KA-2 og Grindavík.

4. flokkur kvenna KF/Dalvíkur lék við Grindavík í dag og vannst glæsilegur sigur, 1-3. Í sama riðli leikur einnig Selfoss.

Eftir hádegið lék 4. flokkur KF/Dalvíkur í styrkleika flokki 2 við KR. Leikurinn endaði með stórsigri KR, en þeir komust yfir snemma leiks og KF/Dalvík jafnaði 1-1. Eftir það nýttu KR strákarnir vel sín tækifæri og sóttu á mörgum mönnum og fengu oft lausa bolta í teignum eða fyrir utan teig sem skapaði góð færi fyrir þá. KF/Dalvík hélt þó sínu skipulagi og börðust vel. Lokatölur 1-9 fyrir KR. Önnur lið í þessum riðli eru KA-2 og Selfoss.

4. flokkur kvenna (2. styrkleikaflokkur) lék svo síðdegis sinn annan leik á mótinu og nú gegn Selfossi. Leikurinn tapaðist með minnsta mun 0-1 og eru öll liðin jöfn í riðlinum með 3 stig, en KF/Dalvík í 2. sæti á markatölu.

3. flokkur kvenna lék svo við Heads Soccer sem er erlent lið og tapaðist leikurinn 0-3. Önnur lið í riðlinum eru RKV og Selfoss-2.

Fleiri leikir  hjá liðunum verða á morgun og um helgina.

Myndir sem ritstjóri vefsins tók í dag fylgja fréttinni.