Yfir 600 sjúkraflug frá Akureyri í ár

Sjúkraflugvél Mýflugs hefur farið í yfir 600 sjúkraflug á þessu ári frá Akureyri. Í þessum 600 flugum hafa 634 sjúklingar verið fluttir á milli landshluta og þar af 396 á Landspítalann í Reykjavík. Í 257 skipti hefur verið um forgangsflutninga til Reykjavíkur að ræða þar sem tíminn skiptir öllu máli. Þessir miklu og síauknu flutningar á veiku fólki í kappi við tímann renna því stoðum undir mikilvægi þess að miðstöð innanlandsflugs í Reykjavík sé í námunda við Landsspítalann.

Hjá Slökkviliði Akureyrar vinna 25 slökkviliðsmenn í fullu starfi og þar af eru 15 sem fara í sjúkraflug. Það fer alltaf að lágmarki einn sjúkraflutningamaður með í sjúkraflug og stundum tveir þegar flytja þarf tvo sjúklinga í sama fluginu. Í alvarlegustu tilfellunum fer læknir frá Sjúkrahúsi Akureyrar með í flug.

Hvert sjúkraflug tekur að meðaltali 3,23 klst og hafa því slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn hjá SA verið um 2000 klst í sjúkraflugum á árinu 2016.

sjukraflug
Heimild og mynd: Slökkvilið Akureyrar.