Yfir 500 pæjur, yfir 70 lið, yfir 400 leikir – Pæjumótið 2014

Pæjumót Sparisjóðsins og Rauðku fer fram 8.-10. ágúst og er það í 24. skipti sem Pæjumótið fer fram á Siglufirði. Mótið hefur skipað stóran sess í uppbyggingu kvennaknattspyrnunnar á Íslandi og má áætla að stærstur hluti knattspyrnukvenna hafi tekið þátt á einu eða fleiri Pæjumótum í gegnum tíðina. Í ár mun 6. og 7. flokkur taka þátt á mótinu ásamt því að 8. flokkur er boðinn velkominn.

Í dag eru 72 lið staðfest á mótið frá 14 félögum en örfá félög eiga eftir að staðfesta fjölda liða sem koma. Búast má við að liðin verði rúmlega 80 talsins frá 17 félögum eða kringum 500 keppendur tíu ára og yngri ásamt fylgdarliði. Áætlað er að hvert lið spili 10 leiki á mótinu og því ættu leikirnir að verða kringum 400 á mótinu. Undirbúningur mótsins er í fullum gangi en unnið er að því að fegra Hólssvæðið, skipuleggja gistingu og matarmálin ásamt ýmsu öðru.

En það verður ekki bara spiluð knattspyrna á mótinu en skemmtidagskráin skipar mikilvægan sess í móti sem þessu. Leikhópurinn Lotta og Danni Pétur munu skemmta stelpunum á föstudagskvöldinu en því miður er ekki hægt að greina frá skemmtikröftunum á laugardagskvöldinu fyrr en nær dregur.

Á jafn stórum viðburði sem Pæjumótinu þá þurfa margar hendur að vinna mikilvæg verk svo mótið gangi sem best. Það þarf dómara, starfsmenn í matnum, sjoppunni og eldhúsinu, vinna við gististaðina, umferðarstjórn o.s.frv. Knattspyrnufélagið er ríkt af góðu fólki sem er tilbúið að leggja sitt af mörkum svo Pæjumótið fari eins vel fram og kostur er og mun félagið á næstu dögum leita til iðkenda, foreldra iðkenda og velunnaðra félagsins til að aðstoða við mótið.
Nú er bara að vona að veðurguðirnir verði okkur hliðhollir líkt og þeir hafa verið nánast í allt sumar.

Aðrar upplýsingar um Pæjómótið má finna hér á síðu KF.

siglufj 068_edited siglufj 061_edited siglufj 063_edited siglufj 064_edited

Myndir frá Pæjumótinu árið 2005 – Magnús Rúnar Magnússon/Héðinsfjörður.is