Yfir 30 þúsund hafa sótt ferðagjöfina

Nú hafa yfir þrjátíu þúsund einstaklingar sótt Ferðagjöfina sína. Allir einstaklingar 18 ára og eldri með lögheimili á Íslandi fá Ferðagjöf að andvirði 5.000 kr. Gjöfin er liður í því að styðja við bakið á íslenskri ferðaþjónustu í kjölfar kórónuveirufaraldurs og efla þannig íslenska ferðaþjónustu sem og hvetja landsmenn til að eiga góðar stundir á ferðalagi víðsvegar um landið. Hægt er að kynna sér Ferðagjöf á vefsíðunni www.ferdalag.is og sjá hvaða fyrirtæki taka þátt.

Stafræn lausn

Þar sem Ferðagjöfin er pappírslaus lausn er hún sótt í gegnum smáforrit. Notendur sem ekki vilja hlaða því niður geta nýtt sér Ísland.is til að sækja sína Ferðagjöf.

Við framkvæmd á Ferðagjöfinni er sérstaklega gætt að meðferð umbeðinna persónuupplýsinga, sem eru símanúmer og netfang viðkomandi. Þær verða aðeins notaðar af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í þeim tilgangi að sannreyna nýtingu Ferðagjafar.

Komdu með!

Í vor fór af stað Komdu með! – hvatningarátak íslenskra stjórnvalda til að fá Íslendinga til að ferðast um landið og kaupa vörur og þjónustu. Ferðagjöf stjórnvalda er liður í því. Alls hafa rúmlega sex hundruð ferðaþjónustufyrirtæki skráð sig til leiks í Ferðagjöf, en það er þeim að kostnaðarlausu og eru þau hvött til að taka þátt. Ferðaþjónustufyrirtæki geta leitað til Ísland.is til að fá upplýsingar um hvernig þau geta skráð sig til þátttöku.

Ferðagjöfin nýtist ferðaþjónustunni beint og er hvati til Íslendinga til að ferðast innanlands í sumar og upplifa allt það sem Ísland hefur upp á að bjóða.

Komdu með á www.ferdalag.is þar sem nálgast má upplýsingar um Ferðagjöfina og þá fjölbreyttu ferðaþjónustu sem í boði er um allt land.